Fara í innihald

Palestína

Þessi grein er gæðagrein að mati notenda Wikipediu.
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá שתינה)
Gervihnattamynd frá 2003 af svæðinu.

Palestína (latína: Palæstina; hebreska: ארץ־ישראל Eretz-Yisra'el, áður einnig nefnt פלשתינה Palestina; arabíska: فلسطين Filasṭīn, Falasṭīn) er eitt margra heita landsvæða á milli Miðjarðarhafsins og árinnar Jórdan svo og nokkurra aðliggjandi landsvæða.

Síðustu árþúsund hafa margar mismunandi landfræðilegar skilgreiningar verið notaðar til þess að afmarka það svæði sem kallað er Palestína. Þær skilgreiningar eru allar umdeildar í stjórnmálum. Víðasta skilgreiningin er sú sem notuð var af Bretum þegar þeim var veitt umboð af Þjóðabandalaginu á millistríðsárunum til þess að stjórna Palestínu en það svæði skiptist nú á milli Ísrael og heimastjórnarsvæða Palestínumanna. Frá stofnun Ísraels hefur orðið algengara að heitið Palestína vísi aðeins til þess síðarnefnda.

Þetta svæði ber einnig ýmis önnur nöfn, svo sem: Kanaanland, Judea, Konungsríki Jórdaníu, Ísraelsríki og Landið helga.

Landamörk og nafngiftir

[breyta | breyta frumkóða]

Í forn-egypskum textum er allt strandsvæði Austurlanda við Miðjarðarhaf á milli Egyptalands og Tyrklands nefnt R-t-n-u (venjulega ritað: Retjenu). Retjenu var skipt upp í þrjú svæði og syðsta svæðið, Djahy, var með u.þ.b. sömu landamæri og Kanaanland, þar sem í dag er Ísrael og heimastjórnarsvæði Palestínumanna.

Á járnöld er sennilegt að hið ísraelska konungsríki, sem varð til úr ríki Davíðs um 930 f.Kr., hafi stjórnað Jerúsalem og svæði sem náði yfir þar sem í dag er Ísrael og heimastjórnarsvæði Palestínumanna, auk landsvæða í vestri og norðri sem spannaði þá samanlagt landsvæði sem fellur nokkuð vel við stórtækari skilgreiningu Ísraelsríkis sem lýst er í Gamla testamentinu. Þó eru fornleifar frá þessum tíma sjaldgæfar og umdeildar.[1][2]

Heitið Palestína kemur af filisteum,[3] sem var þjóð sem réðst inn í Palestínu einhvern tímann á 12. öld fyrir krist. Á hebresku er orðið פְּלְשְׁתִּים felishtim komið af orðinu פְּלִישָׁה felisha sem þýðir innrás.

Filistear, sem voru ekki semítar að kyni, voru frá Suður-Grikklandi og voru skyldir Mýkenum.[4] Þeir voru í fyrstu búsettir á strandsléttu sem nefnist Filistía, sem er nokkurn veginn það svæði sem kallað er Gasaströndin í dag, og lögðu fljótlega undir sig alla strandlengjuna frá Gasa til Jaffa og hálendið í austri allt að gyðingabyggðunum sem þar voru. Þessu svæði var skipt í fimm borgríki sem hétu Gasa, Askalon, Asdod, Gat og Ekron. Þeim var stjórnað af svo kölluðum seren sem hefur sömu merkingu og gríska orðið tyrannos eða harðstjóri eins og það útleggst á íslensku.[5]

Í forn-egypskum textum úr leghöllinni Medinet Habu er minnst á þjóð sem tilheyrði Hafþjóðunum og var kölluð P-r-s-t (venjulega ritað: Peleset). Hún er sögð hafa gert innrás í Egyptaland þegar Ramses 3. var við völd. Talið er afar líklegt að átt sé við filistea. Hebreska heitið feleshet (hebreska: פלשת fəléshseth), er notað í biblíunni um strandsléttuna við Gasa, Filistíu.

Assýríski keisarinn Sargon 2. kallaði svæðið falashtu í annálum sínum. Um það bil sem Assýringar tóku völdin á svæðinu 722 f.Kr. voru filistear orðnir mikilvægir þegnar á svæðinu.[6] 586 fyrir Krist, þegar kaldískir hermenn undir stjórn babýlonska heimsveldisins fluttu stóran hluta íbúana í þrældóm, þá hvarf með öllu sá bragur sem áður hafði einkennt borgarríki filistea.[6]

Á 5. öld f.Kr. ritaði Heródótos á grísku um „hérað í Sýrlandi, sem kallast Palaistinêi“ (latína: Palaestina; íslenska: Palestína). Landamörk svæðisins sem hann talaði um voru ekki nefnd með berum orðum, en Jósefos notaði sama heiti um lítið strandsvæði, Filistíu. Ptólemajos notaði einnig sama hugtak. Plinius eldri skrifar á latínu um svæði sem er hluti af Sýríu og var áður kallað Palaestina og var við austurhluta Miðjarðarhafsins.

Á tímum Rómarveldis, náði skattlandið Júdea (ásamt Samaríu) yfir mest allt Ísrael okkar daga og heimastjórnarsvæði Palestínumanna. En í kjölfar Bar Kokhba uppreisnarinnar á annarri öld fyrir Krist reyndu Rómverjar að slíta tengslum Gyðinga við landið með því að endurnefna Júdeu og var það þá kallað Syria Palaestina.[7]

Á tímum Austrómverska keisaradæmisins voru lönd Sýríu–Palestínu, Samaríu og Galíleu sameinuð og gefið nafnið Palestína. Síðan þá hefur Palestína átt við, í landfræðilegum skilningi, þetta svæði á milli Jórdan og Miðjarðarhafs.

Heimildir frá 19. öld segja Palestínu liggja á milli hafsins og ónefndra viðskiptaleiða, líklegast Hejaz-Damaskus leiðin austur af Jórdandal.

Mynd sem sýnir forn konungdæmi Júdeu og Ísrael auk staðsetningar þeirra á mismunandi tímabilum eins og lýst er í Biblíunni. (Lotter, 1759).

Í hebresku biblíunni, Gamla testamentinu, er svæðið kallað Kanaanland (hebreska: כּנען) þar til Ísraelar setjast að og þá er það kallað Ísrael (Yisrael). Landsvæðið er einnig nefnt „Land Hebrea“ (hebreska: ארץ העברים, Eretz Ha-Ivrim) svo og nokkur skáldleg heiti: „land, sem flæðir í mjólk og hunangi“, „land, sem [Guð] sór feðrum yðar“, „Landið helga“, „Land Drottins“ og „Fyrirheitnalandið.“

Kanaanslandi er lýst ýtarlega í Fjórðu bók Móse 34:1 og þar er talið með Líbanon einnig í Jósúabók 13:5. Þetta svæði virðist hafa verið heimaland margra þjóða samkvæmt biblíunni, svo sem Kanaaníta, Hebrea, Hetíta, Amoríta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta.

Samkvæmt arfsögnum Hebrea er Kanaanland hluti þess lands sem Guð gaf afkomendum Abrahams, þ.e. landsins sem nær frá Níl til Efrat: „Þínu afkvæmi gef ég þetta land, frá Egyptalandsánni til árinnar miklu, árinnar Efrat: land Keníta, Kenissíta, Kadmóníta, Hetíta, Peresíta, Refaíta, Amoríta, Kanaaníta, Gírgasíta og Jebúsíta.“ (Fyrsta Mósebók 15:18-21).

Atburðir guðspjallanna fjögurra í Nýja testamentinu eiga sér allir stað í Fyrirheitnalandinu.

Í Kóraninum er hugtakið Landið helga notað (الأرض المقدسة, Al-Ard Al-Muqaddasah)[8] og það kemur fyrir allavega sjö sinnum.

Uppgrafin hýbýli við Tell es-Sultan.

Frá fornsteinöld til nýsteinaldar (1.000.000 – 5000 f.Kr)

[breyta | breyta frumkóða]

Leifar manna sem fundist hafa suður af Genesaretvatni í Norður-Ísrarel eru allt að 600.000 ára gamlar.[9] Árið 1925 uppgötvuðu menn „Palistínumanninn“ í Zuttiyeh–hellinum í Wadi Al-Amud nærri Zefat, en hann gefur upplýsingar um þróun á þessu svæði.[9][10]

Í hellum Shuqba í Ramallah og Wadi Khareitun í Betlehem hafa fundist verkfæri úr stein, við og dýrabeinum sem rakin eru til Natufian menningarinnar (12500 - 10200 f.Kr.)[9] Fleiri fornleifar frá þessu tímabili hafa fundist við Tel Abu Hureura, Ein Mallaha, Beidha og Jeríkó.[9]

Á bilinu 10000–5000 f.Kr. mynduðust jarðyrkjusamfélög. Sönnunargögn þessu til stuðnings hafa fundist við Haug Sultans (arabíska: Tell es-Sultan, tell þýðir haugur, þó ekki grafhaugur) nærri Jeríkó þar sem fundist hafa ferhyrndir múrsteinar úr leir, ferhyrnd hýbýli, brot úr leirmunum og slitur vefnaðar.[11] Jeríkó hefur því stundum verið lýst sem elstu borg heims.

Frá koparöld (4500 – 3000 f.Kr.) til bronsaldar (3000 – 1200 f.Kr.)

[breyta | breyta frumkóða]

Menningarsamfélag frá Sýrlandi, sem einkenndist af notkun kopar- og steintóla, fluttist til svæðisins eftir veginum sem liggur frá Jeríkó suður eftir ströndum Dauðahafsins og þaðan til Be'ér Sheva og Gasa. Þessir fólksflutningar efldu þann þéttbýlisvöxt sem þegar var hafinn.[11] Snemma á bronsöld höfðu sjálfstæð kanaanísk borgríki myndast á sléttum og við strandir. Borgríkin voru umlukin veggjum úr leirmúrsteinum og reiddu sig á matarframleiðslu frá nærliggjandi jarðyrkjuþorpum sér til framfærslu.[11]

Kanaanísku borgarríkin stunduðu verslun og áttu í stjórnmálasambandi við bæði Egyptaland og Sýrland. Ýmis þéttbýlissvæði sem tilheyrðu Kanaanlandsmönnum voru lögð í rúst í kringum 2300 f.Kr. Stuttu síðar gerðu hirðingjar, sem komu að austan megin Jórdan, innrás og settust að í hæðunum.[11]

Kanaanítar urðu fyrir miklum áhrifum á miðri bronsöld frá þeim menningarsamfélögum sem umluktu þá, þ.e. frá Egyptalandi, Mesópótamíu, Fönikíu og Sýrlandi. Margvísleg verslunarsambönd og landbúnaðarefnahagur leiddu til þróunar nýrra leirkeraforma, ræktunar ávaxta og víðtækrar notkunar brons.[11] Greftrunarsiðir frá þessu tímabili benda til þess að menn hafi trúað á líf eftir dauðann.[11]

Stjórnmála-, verslunar- og hernaðaratburðir síðla á bronsöld (1450 – 1350 f.Kr) voru skrásettir af sendiherrum og kanaanískum umboðsmönnum Egyptalands á nokkur hundruð leirtöflur sem ganga undir heitinu Amarna bréfin.[11]

Um 1250 f.Kr. fluttust filistear að og blönduðust íbúunum sem fyrir voru og töpuðu þannig þjóðareinkennum sínum eftir nokkrar kynslóðir.[6]

Járnöld (1200 – 330 f.Kr.)

[breyta | breyta frumkóða]

Leirkeraleifar skreyttar með stílfærðum fuglum sem fundist hafa í Asqelon, Ashdod, Gat, Ekron, Gasa eru fyrstu sönnunargögnin fyrir búsetu Filistea á svæðinu.[6] Filistear eru taldir hafa borið með sér járnvopn og stríðsvagna auk nýrrar aðferðar til að gerja vín.[6]

Þróun á tímabilinu 1250 til 900 f.Kr. er umdeild, styrinn stendur um það hvort taka eigi frásögn Gamla testamentisins, þar sem Ísraelar sigra Kanaanland, alvarlega.[12] Niels Peter Lemche, biblíufræðingur við Kaupmannahafnarháskóla, sagði í ritgerð sinni að sú frásögn sem birtist í biblíunni „er í mótsögn við nokkra mynd af palestínskum samfélögum til fornra, sem hægt er að gera sér í hugarlund, byggða á fornum heimildum frá svæðinu.“[13]

Tímabil Gamla testamentsins

[breyta | breyta frumkóða]
Kort af syðri Austurlöndum, u.þ.b. 830 f.Kr..
  Júdaríki
  Ísraelsríki
  Borgarríki Filistea
  Borgarríki Fönikía
  Konungsríki Ammons
  Konungsríkið Edom
  Konungsríkið Aram-Damaskus
  Aramískir ættbálkar
  Arubu ættbálkar
  Nabatu ættbálkar
  Assýría
  Konungsríkið Moab

Þó menn deili um hvort Hebrear hafi komið til Kanaanslands frá Egyptalandi eða komið úr kafi þeirrar fólksmergðar sem á svæðinu var, þá eru menn sammála um að það hafi gerst á milli 13. og 12. öld fyrir Krist.[12]

Samkvæmt biblíuhefð var Ísraelsríki stofnað af hebreskum ættbálkum undir stjórn Sál sem varð fyrsti konungurinn um 1020 f.Kr.[14] Árið 1000 f.Kr. var Jerúsalem gerð höfuðborg Ríki Davíðs og um þetta leiti er talið að fyrsta Jahvehofið í Jerúsalem hafi verið reist af Salómon konungi.[14] Um 930 f.Kr. hafði konungsríkið skipst í tvennt, Ísraelsríki í norðri og Júdaríki í suðri.[14]

Fornleifar gefa til kynna að síðla á 13. öld, 12. öld og snemma á 11. öld f.Kr. byggðust mörg hundruð óvarin smáþorp og mörg þeirra í fjöllum Palestínu.[13] Á 11. öld fór þeim að fækka en þess í stað reistu menn víggirta bæi.[13]

Það dróg úr umsvifum Egypta á svæðinu á þessu tímabili, þó þykir líklegt að Bet She'an hafi verið egypskt virki þar til snemma á 10. öld f.Kr.[13] Stjórnmál samfélagsins einkenndust af illdeilum milli valdamanna þar til um miðja 9. öld þegar nokkrir höfðingjar sameinuðu krafta sýna í stjórnarbandalagi sem var stærra í sniðum en þekktist á bronsöld.[13]

Á árunum 722 til 720 f.Kr. var nyðra Ísraelsríki sigrað af assýríska heimsveldinu og Hebrear gerðir útlægir.[14] Árið 586 f.Kr. var Júda sigrað af babýlónska heimsveldinu og Jerúsalem, ásamt Jehóvahofinu, lagt í eyði.[14] Flestir Hebreanna voru sendir í þrældóm til Babýlóníu.[6]

Persnesk yfirráð (538 f.Kr.)

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir myndun persneska heimsveldisins var gyðingum leyft að flytja aftur til þess lands sem trúarrit þeirra nefndu Land Ísraela og þeim veitt sjálfsstjórn. Það var um þessar mundir sem hið síðara Jehóvahof var reist í Jerúsalem.[6]

Sabastiye, nærri Nablus, var nyrsta skattland Persa í Palestínu og systu landamæri þeirra voru við Hebron.[6] Sumir íbúanna þjónuðu í hernum og í smærri stöðum innan landstjórnar Persa en flestir stunduðu áfram landbúnað. Um 400 f.Kr. gerðu Nabatear innrás í suðurhluta Palestínu og stofnuðu þar menningarsamfélag við Negev sem varaði fram til 160 f.Kr.[6]

Hellenísk yfirráð (333 f.Kr.)

[breyta | breyta frumkóða]

Persneska heimsveldið leið undir lok stuttu eftir að Makedóníumenn undir stjórn Alexanders mikla réðust inn í Palestínu.[15] Þegar Alexander lést, án þess að hafa látið eftir sig erfingja, skiptu herforingjar hans landsvæðinu sem hann hafði lagt undir sig á milli sín. Júdea var fyrst undir stjórn Ptólemajaríkis og síðar Selevkídaríkis.[16]

Ásýnd landsins breyttist auðsjáanlega vegna mikils vaxtar og þróunar, vegna skipulagningar þéttbýlis og bygginga víggírtra borga.[15] Hellenísk hefð í leirkerasmíð blandaðist þeirri palestínsku. Iðnaður og viðskipti döfnuðu, þá sérstaklega á hellenískum yfirráðasvæðum, svo sem Askalan, Gasa, Jerúsalem, Jaffa og Neblus.[15]

Gyðingar í Júdeu höfðu takmarkað sjálfsforræði bæði hvað varðaði trú- og stjórnmál á tímum Antíokkosar 3.[17] Vegna hrifningar á hellenisma og þörf á að skapa einingu meðal íbúa Jerúsalem gegn Rómverjum, sem voru að sækja í sig veðrið, tók Antíokkos 4. upp þá stefnu að aðlaga íbúa Jerúsalem að grískum siðum og draga úr þeim aðskilnaði sem ríkti á milli gyðinga og annarra. Gyðingatrú var bönnuð og lá líflát við.[18] Af þessum sökum reyndu sumir að fela örmul umskurðar.[19] Deilur milli forsprakka umbótastefnunnar Jasons og Menelausar leiddi að lokum til borgarastyrjaldar og íhlutunar Antíokkosar 4.[19] Áframhaldandi ofsóknir á gyðingum leiddu til uppreisnar Makkabea undir stjórn Hasmonea, en þeir unnu fljótlega sigur og var Jónatan Mekkabeus, sonur Hasmoneusar, gerður landstjóri og æðsti prestur Júdeu 152 og hellenistar reknir úr Jerúsalem.[19][20] Hasmonear deildu um sjálfræði við Aristobúlos 2. og Hyrcanus 2. í um öld þar til rómverski herstjórinn Pompeius kom til landsins. Landið varð þá leppríki Rómverja undir stjórn Hyrcanusar og síðar skattland Rómverja sem landstjóri Sýrlands stjórnaði.[21]

Rómversk stjórn (63 f.Kr)

[breyta | breyta frumkóða]

Þó svo Pompeius kæmi til Palestínu 63 f.Kr., varð rómversk stjórn ekki sterk fyrr en undir stjórn Heródesar mikla konungs.[15] Þéttbýlisskipulag rómverja einkenndist af því að hanna borgina í kringum aðaltorgið (latína: Forum) þar sem aðalgötur borgarinnar liggja saman — Cardo, sem liggur frá norðri til suðurs og Peladious sem liggur frá austri til vesturs.[15] Borgir voru tengdar saman með miklu vegakerfi sem þjónaði bæði viðskiptalegum og hernaðarlegum tilgangi. Einar merkilegustu fornleifar frá þessum tíma eru Heradion (Tell el-Fureidis) suður af Betlehem og Caesarea.[15]

Um það bil sem Jesús er talinn hafa fæðst, var ókyrrð í rómversku Palestínu og beinni stjórn Rómverja var aftur komið á.[15] Kristnir menn voru kúgaðir og þó flestir tækju upp siði Rómverja voru margir, þá sérstaklega gyðingar, sem þoldu illa að vera undir stjórn þeirra.[15]

Í fyrra stríði gyðinga við Róm (66-73), hertók Títus Jerúsalem og rændi og eyðilegði musterið svo aðeins stóðu eftir stoðveggir, þar á meðal vestur veggurinn sem kallaður er Grátmúrinn. Árið 135, í kjölfar uppreisnar gyðinga rak rómverski keisarinn Hadrianus alla gyðinga í Júdeu í útlegð og lá líflát við. Þá fluttust gyðingar margir til Samaríu og Galíleu.[7] Tiberias varð höfuðstaður ættfeðra gyðinga sem voru sendir í útlegð.[15] Rómverjar breyttu nafni Júdeu í Sýría-Palestína.[7]

Hadrianus keisari (132 e.Kr) endurnefndi Jerúsalem „Aelia Capitolina“ og byggði þar hof til heiðurs Júpíter.[15] Kristin trú var iðkuð á laun og hellenismi hélt áfram að breiðast út í Palestínu undir stjórn Septimius Severus (193 - 211 e.Kr).[15] Nýjar borgir mynduðust við Eleutheropolis (Beit Jibrin), Diopolis (Lydd) og Nicopolis (Emmaus).[15]

Yfirráð Austrómverska keisaradæmisins (330 – 640 e.Kr.)

[breyta | breyta frumkóða]

Trúskipti Konstantíns keisara um 330 e.Kr. urðu til þess að kristni var gerð að ríkistrú Palestínu.[22] Eftir að móðir hans, keisaraynjan Helena, fann þann stað sem hún taldi að Kristur hafði verið krossfestur á, var Kirkja hinnar helgu grafar byggð í Jerúsalem.[22] Fæðingarkirkjan í Betlehem og Uppstigningarkirkjan í Jerúsalem voru einnig byggðar í stjórnartíð Konstantíns.[22]

Því varð Palestína höfuðból pílagríma og meinlætismanna alls staðar að úr heiminum.[22] Mörg klaustur voru byggð, þar á meðal Klaustur heilags Georgs í Wadi al-Qild, Deir Quruntul og Deir Hijle nálægt Jeríkó, og Deir Mar Saba og Deir Theodosius austur af Betlehem. (Deir er arabíska og þýðir klaustur).[22]

Árið 352 e.Kr. gerðu gyðingar uppreisn gegn býsantískum yfirvöldum í Tiberias og öðrum hlutum Galíleu, en sú uppreisn var kvödd niður með grimmilegum hætti.[22]

Um 390 e.Kr. var Palestínu skipt í þrennt, Palaestina Prima, Secunda og Tertia (latína fyrir fyrsta, önnur og þriðja Palestína).[22] Palaestina Prima samanstóð af Júdeu, Samaríu og Pereu, en landstjórinn var búsettur í Caesareu. Palaestina Secunda samanstóð af löndum Galíleu, neðri hluta Jezreeldal, löndum austur af Galíleu og vestur hluta fyrrum Decapolis og sat landstjórinn við stjórnvölinn í Scythopolis. Palaestina Tertia samanstóð af Negev, suðurhluta Jórdan og Siníu, en höfuðból landstjórans var í Petru. Palaestina Tertia var einnig þekkt sem Palaestina Salutaris.[22]

Árið 536 e.Kr. gerði Justinianus 1. landstjórann í Caesareu að prókonsúl yfir allri Palestínu. Jústinianus taldi að stöðuhækkun landstjórans væri við hæfi þar sem hann væri ábyrgur fyrir „umdæminu sem vor herra Jesús Kristur... birtist á jarðríki“.[23] Þetta útskýrir af hverju Palestína blómgaðist svo undir stjórn Kristinna. Fólksfjölgun í borgum á borð við Caesarea Maritima, Jerúsalem, Scythopolis, Neapolis og Gasa náði hámarki um þessar mundir og gátu þær af sér marga Kristna fræðimenn á sviðum mælsku, sagnaritunar (sbr. Kirkjusaga Eusebiusar) og helgisagnaritunar.[23]

Austurrómverska ríkið tapaði yfirráðum yfir Palestínu tímabundið á meðan hernám Persa stóð yfir 614–628 e.Kr. Svo árið 643 tapaði ríkið yfirráðum endanlega þegar Múslimar komu en þeir unnu fullnaðar sigur á býsantíska herliðinu í bardaganum um Yarmouk árið 636. Jerúsalem gafst upp 638 og Caesarea á milli 640 og 642.

Kalífadæmi Araba (638 – 1099 e.Kr.)

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 638 e.Kr. skrifuðu kalífinn Omar ibn al-Khattāb og Sophronius, býsantíski borgarstjóri Jerúsalem, undir Al-Uhda al-'Omariyya (Umariyya sáttmálinn) sem kvað á um réttindi og skyldur allra sem ekki voru múslimar í Palestínu.[22] Gyðingum var leyft að snúa aftur til Palestínu í fyrsta skipti eftir 500 ára útlegð sem Rómverjar höfðu rekið þá í og austrómverskir ráðamenn fylgdu eftir.[24]

Omar Ibn al-Khattab varð fyrstur sigurvegara Jerúsalem til að ganga inn í borgina. Þegar hann heimsótti þann stað sem í dag kallast Haram al-Sharif, lýst hann því yfir að um heilagan tilbeiðslustað væri að ræða.[24] Þær borgir sem viðurkenndu nýja yfirvaldið voru skrásettar á þessum tíma og voru: Jerúsalem, Nablus, Jenin, Akko, Tiberias, Bet Shean, Caesarea, Lajjun, Lod, Jaffa, Imwas, Beit Jibrin, Gasa, Rafah, Hebron, Yubna, Haifa, Safad and Askalan.[24]

Ættveldi Umayyad (661750 e.Kr.)

[breyta | breyta frumkóða]

Í stjórnartíð Umayyad-ættarinnar var héraðinu ash-Sham (arabíska fyrir Æðra Sýrland), sem Palestína tilheyrði, skipt í fimm umdæmi. Jund Filastin (arabíska: جند فلسطين; þýðir bókstaflega „her Palestínu“) var svæði sem teygði sig frá Sínaí til sléttunar við Akko. Helstu borgir voru Rafah, Caesarea, Gasa, Jaffa, Nablus and Jeríkó. Í fyrstu var Lod höfuðborgin, en árið 717 varð nýbyggða borgin Ramla gerð að höfuðstað. Jund al-Urdunn (þýðir bókstaflega „her Jórdan“) var norðaustur af Filistíu. Helstu borgir voru Legio, Akko, Beit She'an,Tyre og höfuðborgin var Tiberias.

Árið 691 skipaði kalífinn Abd al-Malik ibn Marwan svo fyrir að hefja ætti byggingu Helgidómsins á klettinum þar sem talið var að Múhammeð spámaður hafi hafið næturför sína til himnaríkis, á stalli Jehóvahofsins sem stóð þar áður. Um áratug síðar skipaði kalífinn Al-Walid I svo fyrir að Al-Aqsa-moskan yrði byggð.[24]

Kristnir menn og gyðingar voru opinberlega titlaðir „Fólk bókarinnar“ í stjórnartíð Umayyad-ættarinnar til þess að undirstrika sameiginlega arfleifð þeirra og Múslima.[24]

Kalífadæmi Abbasída (750 – 969 e.Kr.)

[breyta | breyta frumkóða]

Palestína skipti Abbasída ekki eins miklu máli og fyrri kalífa, þó komu kalífar með aðsetur í Bagdad á helga staði í Jerúsalem og héldu áfram að byggja við Ramla.[24] Strandsvæði voru víggirt og borgir á borð við Akko, Haifa, Caesarea, Arsuf, Jaffa and Ashkelon fengu fjármagn úr hirslum ríkisins til uppbyggingar.[25]

Árlegur markaður var í Jerúsalem 15. september og verslunarmenn frá Písa, Genóa, Feneyjum og Marseilles komu þangað til að versla krydd, sápu, silki, ólífuolíu, sykur og glerbúnað í skiptum fyrir evrópskan varnað.[25] Kristnir pílagrímar komu einnig frá Evrópu og gáfu miklar fjárhæðir til helgistaði kristinna í Jerúsalem og Betlehem.[25]

Stjórn Fatimída (969 – 1099 e.Kr.)

[breyta | breyta frumkóða]

Fatimídar, með höfuðstöðvar í Túnis, sögðust vera afkomendur Múhameðs spámanns í gegnum dóttir hans Fatímu og lögðu undir sig Palestínu með innrás frá Egyptalandi árið 969.[25] Jerusalem, Nablus, og Askalan voru stækkaðar og endurgerðar í stjórnartíð þeirra.[25]

Eftir tíundu öld byrjaði ríkjaskipulagið (þar sem því var skipt í Jund) að eyðast og kalífdæmið skiptist í æ smærri parta. Árið 1071 gerðu Tyrkir innrás og tóku Jerúsalem en töpuðu henni aftur 1098.[25]

Sjá hér kort af Palestínu á þessu tímabili sem sýnir ríkjaskiptinguna (tilvísun utan Wikipedia).
Kort gert 1890 sem sýnir Palestínu á þessum tíma eins og arabískir landafræðingar lýstu því.

Stjórn krossfarana (1099 – 1187 e.Kr.)

[breyta | breyta frumkóða]
Sjá aðalgrein um Krossferðirnar

Í stjórnartíð krossfaranna voru virki, kastalar, turnar og víggirt þorp byggð, endurbyggð og endurgerð um alla Palestínu á dreifbýlissvæðum.[25] Eftirtektarverð eru ummerki byggingarstíls krossfaranna í gamla borgarhluta Akko.[25]

Í júlí 1187 vann kúrdíski hershöfðinginn Saladín, með höfuðstöðvar í Kaíró, sigur í bardaganum um Hattin.[26] Saladín hélt áfram sigurför sinni til Jerúsalem. Þar gerði hann samning við krossfaranna og leyfði þeim að halda áfram búsetu í Jerúsalem og árið 1229 gerði Friðrik 2. 10 ára samning sem gaf krossförunum aftur stjórn yfir Jerúsalem, Nasaret og Betlehem.[26]

Árið 1270 gerði Baibar súltan krossfarana útlagða úr ríki sínu, en þeir fengu þó að halda bækistöðvum í Akko þar til 1291.[26] Þar með yfirgáfu Evrópubúar Palestínu og héldu aftur til síns heima eða blönduðust fólksmergðinni þar.[26]

Mamelukkríkið (1270 – 1516 e.Kr.)

[breyta | breyta frumkóða]

Palestína var hluti Damaskus-umdæmis í stjórnartíð Mamelukka, sem höfðu aðsetur í Egyptalandi, og var umdæminu skipt upp í þrjú smærri umdæmi með Jerúsalem, Gasa og Safad sem höfuðborgir.[26] Landið var rómað af arabískum og múslímskum riturum sem „blessað land spámanna og heiðraðra íslamskra leiðtoga,“ múslímskir helgistaðir voru „enduruppgötvaðir“ og þangað sóttu margir pílagrímar.[26]

Í fyrri hluta stjórnartíðar Mamelukka (1270 – 1382) voru margir skólar byggðir og leiguhúsnæði fyrir ferðamenn (khan), moskur sem voru umhirðulausar eða eyðilagðar í stjórnartíð krossfaranna voru uppgerðar. Hins vegar var seinni hluti stjórnartíðar þeirra (1382 - 1517) hnignunarskeið þar sem Mamelukkar stóðu í stríði við Mongóla utan Palestínu.[26]

Árið 1486 brutust út hernaðarátök við Ósmanaríkið í stríði um vestur Asíu. Herir Mamelukka töpuðu gegn herjum Ottómanns súltansins, Selim I, og þeir misstu stjórn á Palestínu 1516 eftir bardagan um Marj Dapiq.[26]

Ósmanaríkið (1516 – 1917 e.Kr.)

[breyta | breyta frumkóða]
Landsvæði Ósmanaveldisins árið 1890.

Eftir sigur Ósmana var Palestína ekki lengur opinbert heiti umdæmisins þar sem Tyrkir nefndu þau gjarnan eftir höfuðborginni. Frá því að Palestína var innlimuð í heimsveldi Ósmana 1516 varð hún að vilayet (sem var stjórnsýslueining innan hvers umdæmis) sem tilheyrði Damaskus-Sýrlandi þar til 1660. Svo tilheyrði hún Sídon með hléum þar sem Frakkar tóku Jaffa, Haifa og Caesarea á tímabilinu 7. mars 1799 til júlí 1799. Þann 10. maí 1832 varð Palestína innlimuð af undirkonungnum Múhameð Alí af Egyptalandi (en tilheyrði áfram Ósmanaríkinu að nafninu til), en í nóvember 1840 féll ríkið aftur í beina stjórn Ósmana.

Gamla nafnið, Palestína, var áfram algengt í hálfformlegum umræðum. Mörg dæmi þess hafa varðveist frá 16. og 17. öld.[27] Á 19. öld byrjaði ríkistjórn Ósmanaríkis að nota hugtakið Arz-i Filistin (‚Land Palestínu‘).[28] Á meðal menntaðra var hugtakið Filastin algengt, þá var átt við alla Palestínu, umdæmis Jerúsalem.[29]

Eftir fyrri heimsstyrjöldina töpuðu Ósmanar völdum í Palestínu og Bretar settust við stjórnvölinn.

Í Evrópu, upp að fyrri heimsstyrjöldinni, var nafnið „Palestína“ notað óformlega um það svæði sem náði frá Raphai, sem er suðaustur af Gasa, norður til Nahr el Lītani sem tilheyrir nú Líbanon. Hafið markaði landamærin til vesturs en í austri mörkuðust þau af upphafi eyðimerkur Sýrlands sem var illa skilgreint. Í ýmsum evrópskum heimildum voru landamærin til austurs sögð við Jórdan eða rétt austur af Amman eða einhvers staðar þar á milli. Negev-eyðimörkin var þó ekki talin með.[30]

Samkvæmt Sykes-Picot-sáttmálanum frá 1916 sáu menn fram á að mest öll Palestína yrði alþjóðlegt verndargæslusvæði undir stjórn Breta eða Frakka þegar Ósmanar höfðu tapað þar völdum. Stuttu eftir það gaf breski utanríkisráðherrann Arthur Balfour út yfirlýsingu sína sem kvað á um að í Palestínu yrði Gyðingaathvarf.

Egypska leiðangursveitin, leidd af marskálknum Edmund Allenby hertók Jerúsalem 9. desember 1917. Uppgjöf Tyrkja fylgdi í kjölfarið á sigri Breta í bardaganum um Megiddo í september 1918 og höfðu þeir þá náð gjörvallri Palestínu á sitt vald.[31]

Palestína í forsjá Breta (1920 – 1948)

[breyta | breyta frumkóða]
Palestína og Transjórdanía voru hluti af umdæminu sem Bretum var falið að stjórna af Þjóðabandalaginu.

Formleg notkun orðsins „Palestine“ var aftur notuð í ensku þegar Bretum var falið að stjórna Palestínu. Bretar gerðu ensku, hebresku og arabísku opinber tungumál svæðisins. Palestína var þá svo nefnd í ensku og arabísku en Palestína, land Ísraela ((פלשתינה (א"י) á hebresku.

Í apríl 1920 fundaði Æðstaráð Bandamanna (Bandaríkin, Stóra Bretland, Frakkland, Ítalía og Japan) í Sanremo og teknar voru ákvarðanir um sigruðu landsvæðin. Bretar tóku við umráðum í Palestínu þó ekki væri afráðið hver landamörk yfirráðasvæðisins yrðu eða hvernig því yrði stjórnað. Chaim Weizmann var forsvarsmaður Síónistasamtakanna á fundinum og sagði frá í fundargerð sinni til félagsins:

„Enn er óákveðið um mikilvæg atriði, svo sem hvernig stjórn verður háttað og hver landamörk Palestínu eru. Mörkin sem umræðir eru þau milli franska Sýrlands og Palestínu sem munu marka landamærin í norðri og í austri sem liggja að arabíska Sýrlandi. Önnur mörk verða ekki ákveðin fyrr en Feisal emír kemur til Friðarráðstefnunar, sem verður líklegast í París.“[32]

Í júlí 1920 ráku Frakkar Faisal bin Husayn frá Damaskus og enduðu þar með lítilshæfa stjórn hans yfir Transjórdaníu, þar sem höfðingjar höfðu í gegnum árin spyrnt fótum við hvers kyns miðstýrðri stjórn. Höfðingjarnir (arabíska: sheik) sem áður höfðu verið hliðhollir Sharifnum í Mekka báðu Breta að taka við stjórn svæðisins. Herbert Samuel bað um að palestínska yfirráðasvæðið næði einnig til Transjórdaníu en á fundum í Kaíró og Jerúsalem á milli Winston Churchill og Abdúlla emírs í mars 1921 var ákveðið að Abdúlla myndi stjórna því svæði (í fyrstu aðeins í sex mánuði) fyrir hönd palestínskra yfirvalda. Sumarið 1921 varð Transjórdanía hluti yfirráðasvæðis Breta að undanskildu heimalandi Gyðinga.[33] 24. júlí 1922 samþykki Þjóðabandalagið skilyrði Breta um yfirráð yfir Palestínu og Transjórdaníu. 16. september var yfirlýsing Balfour svo samþykkt af Þjóðabandalaginu en Transjórdanía undanskilin fyrirhuguðu heimalandi Gyðinga.[34] Þá samanstóð yfirráðasvæði Breta af Palestínu sem var um 23% svæðisins og Transjórdaníu sem var um 77%. Transjórdanía var dreifbýlt svæði þar sem lítið var um náttúruauðlindir og stór hluti þess var eyðimörk.

Bandaríkjamenn efuðust um fyrirætlanir Breta og héldu að um áframhaldandi nýlendustefnu væri að ræða. Því var því skotið á frest að veita þeim yfirráð. Svipaðar efasemdir vöknuðu um ásetning Frakka og Ítala. Því neituðu Frakkar að samþykkja bresk yfirráð í Palestínu fyrr en þeirra eigin yfirráð yfir Sýrlandi voru staðfest.[35]

Áður en Bretum voru veittir stjórnartaumarnir árið 1923 notuðu þeir stundum hugtakið Palestína um það svæði sem er vestur af Jórdan en kölluðu svæðið austan megin við ánna Trans-Jordan (Transjórdanía)[36][37] Æ fleiri gyðingar fluttu til svæðisins á þessum tíma.

Frímerki frá Palestínu gefið út í stjórnartíð Breta.

Á næstum árum í aðdraganda Seinni heimsstyrjaldarinnar versnaði staða Breta í Palestínu. Margir þættir orsökuðu þetta, þar á meðal:

  • Hröð hnignun vegna linnulausra árása ísraelsku hryðjuverkasamtakanna Irgun og Lehi á breska ráðamenn, herlið og hernaðarleg skotmörk. Þetta olli miklum skaða og dróg úr baráttuanda Breta auk þess sem andstaða gegn hersetunni fór vaxandi heima fyrir. Bretar vildu hermennina heim.[38]
  • Almannaálit um allan heim gagnvart Bretum fór versnandi vegna þess að Bretar reyndu að koma í veg fyrir að þeir sem lifðu af Helförina kæmust inn í landið en þeir sendu þá frekar í flóttamannabúðir til Kýpur eða jafnvel aftur til Þýskalands.
  • Kostnaðurinn við upphald 100.000 manna hers í Palestínu var mikill baggi fyrir efnahag Bretlands sem var þegar í vandræðum vegna kreppu sem fylgdi í kjölfar stríðsloka.

Loks, snemma árs 1947, lýsti breska ríkistjórnin því yfir að þeir vildu afsala sér umráðum í Palestínu og fela þau í hendur Sameinuðu þjóðanna.

Skipting Sameinuðu þjóðanna

[breyta | breyta frumkóða]

Þann 29. nóvember 1947 samþykkti Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna tvískiptingu Palestínu með atkvæðagreiðslu og var 2/3 ríkjanna meðmæltur. Hugmyndin var að leysa úr deilum araba og gyðinga með því að skipta svæðinu á milli þjóðarbrotanna og gera Jerúsalem að verndarsvæði undir stjórn S.þ. Forsprakkar gyðinga samþykktu þessa tillögu en arabar voru mótfallnir og neituðu að taka þátt í samningarviðræðum. Arabísk og múslímsk nágrannalönd voru einnig mótfallinn skiptingu. Samfélag araba brást ókvæða við þegar Æðrinefnd araba (e. Arab Higher Committee), sem var eins konar stjórnmálaflokkur Palestínumanna, lýsti yfir verkfalli og í kjölfarið fylgdu miklar óeirðir. Ísrael var stofnað 14. maí 1948 og næsta dag lauk stjórn Breta yfir Palestínu formlega. Fljótlega eftir sjálfstæðisyfirlýsingu Ísrael réðust arabískir herir á það (þ.e. herir Líbanon, Sýrlands, Írak, Egyptalands, Jórdaníu, Her heilagsstríðs, Frelsisher araba og arabar þar búsettir) og hófst þá stríð Araba og Ísraela. Því var skiptingunni aldrei komið í verk.

Staðan í dag

[breyta | breyta frumkóða]

1949 gerðu stríðandi fylkingar vopnahlé og var þá úr sögunni að stofna sjálfstætt ríki Palestínu. Löndum var skipt á milli Ísraela, Egypta, Sýrlands og Jórdaníu.

Auk þess svæðis sem Ísraelum var íhlutað samkvæmt áður fyrirhugaðri skiptingu náðu þeir um 26% þess lands vestan við Jórdan sem áður hafði verið undir stjórn Breta. Jórdanía innlimaði um 21% þess lands, sem nú kallast Vesturbakkinn. Jerúsalem var skipt, Jórdanía fékk austurhlutan ásamt elsta hlusta borgarinnar og Jerúsalem vesturhlutan. Gasaströndinn var undir stjórn Egyptalands.

Samkvæmt CIA World Factbook,[39] segjast 49% þeirra 10 milljóna sem búa á milli Miðjarðarhafsins og Jórdaníu vera Palestínumenn, arabar, Bedúínar og eða drúsar. Þar af er ein milljón arabískir ríkisborgarar í Ísrael. Hinar fjórar milljónirnar sem ekki eru ríkisborgarar búa á Vesturbakkanum og Gasaströnd. Þeir búa í lögsögu Palestínska þjóðveldisins sem starfar eftir skilyrðum Ísraels.

Samkvæmt 49. grein fjórða hluta Genfarsáttmálans er flutningur óbreyttra borgara hernámsþjóðar á hernumið land óheimil [40], en þrátt fyrir það búa 479.500 ísraelskir landnemar ólöglega á herteknu landi Palestínumanna, þar af 285.800 í 121 landnemabyggðum á Vesturbakkanum og 193.700 í Austur-Jerúsalem [41].

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Thomas L. Thompson (1999). The Mythic Past:How Writers Create the Past. Basic Books. ISBN 0-465-00649-3. Afrit af upprunalegu geymt þann 9. október 2015. Sótt 24. júní 2007.
  2. Israel Finkelstein and Neil Ascher Silberman (2000). „The Bible Unearthed: Archaeology's New Vision of Ancient Israel and the Origin of Its Sacred Texts“. Bible and Interpretation. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. október 2013. Sótt 05.14.2007.
  3. Hansen, 2000, p. 130.
  4. Killebrew, 2005, 231.
  5. Helle, Knut; Jarle Simensen; Kåre Tønnesson; Sven Tägil (1988). „Fyrirheitna landið“. Saga Mannkyns: Samfélög hámenningar í mótun, 1200-200 f.Kr. þýðing Gísli Jónsson. Almenna Bókafélagið. bls. 82–83.
  6. 6,0 6,1 6,2 6,3 6,4 6,5 6,6 6,7 6,8 Shahin (2005), 6
  7. 7,0 7,1 7,2 Lehmann, Clayton Miles (Summer 1998). „Palestine: History: 135–337: Syria Palaestina and the Tetrarchy“. The On-line Encyclopedia of the Roman Provinces. University of South Dakota. Afrit af upprunalegu geymt þann 21. júní 2000. Sótt 19. júlí 2006.
  8. Surah 5:21
  9. 9,0 9,1 9,2 9,3 Shahin (2005), page 3
  10. „Human Evolution and Neanderthal Man“ (PDF). Antiquity Journal.[óvirkur tengill]
  11. 11,0 11,1 11,2 11,3 11,4 11,5 11,6 Shahin (2005), page 4
  12. 12,0 12,1 Gyémánt, Ladislau (2003). „Historiographic Views on the Settlement of the Jewish Tribes in Canaan“. 1/2003. Sacra Scripta: 26 - 30.
  13. 13,0 13,1 13,2 13,3 13,4 Niels Peter Lemche. „On the Problems of Reconstructing Pre-Hellenistic Israelite (Palestinian) History“. Journal of Hebrew Scriptures. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. apríl 2007. Sótt 05.10.2007.
  14. 14,0 14,1 14,2 14,3 14,4 „Facts about Israel:History“. Israeli Ministry of Foreign Affaits. Afrit af upprunalegu geymt þann 18. desember 2012. Sótt 05.10.2007.
  15. 15,00 15,01 15,02 15,03 15,04 15,05 15,06 15,07 15,08 15,09 15,10 15,11 Shahin (2005), 7
  16. Pastor, 1997, 41.
  17. Hayes & Mandell, 1998, 41.
  18. Helle, Knut; Jarle Simensen; Kåre Tønnesson; Sven Tägil (1988). „Gyðingdómur milli Írans og Rómar“. Saga Mannkyns: Asía og Evrópa mætast, 200 f.Kr. - 500 e.Kr. þýðing: Þórhildur Sigurðardóttir. Almenna Bókafélagið. bls. bls. 121.
  19. 19,0 19,1 19,2 Johnston, 2004, 186.
  20. Helle, Knut; Jarle Simensen; Kåre Tønnesson; Sven Tägil (1988). „Gyðingdómur milli Írans og Rómar“. Saga Mannkyns: Asía og Evrópa mætast, 200 f.Kr. - 500 e.Kr. þýðing: Þórhildur Sigurðardóttir. Almenna Bókafélagið. bls. bls. 121-122.
  21. Chancey, 2005, 44.
  22. 22,0 22,1 22,2 22,3 22,4 22,5 22,6 22,7 22,8 Shahin (2005), 8
  23. 23,0 23,1 Kenneth G. Holum „Palestine“, The Oxford Dictionary of Byzantium. Alexander P. Kazhdan (ritstj.). Oxford University Press, 1991.
  24. 24,0 24,1 24,2 24,3 24,4 24,5 Shahin (2005), page 10
  25. 25,0 25,1 25,2 25,3 25,4 25,5 25,6 25,7 Shahin (2005), page 11
  26. 26,0 26,1 26,2 26,3 26,4 26,5 26,6 26,7 Shahin (2005), page 12.
  27. Gerber, 1998.
  28. Mandel, 1976, p. xx.
  29. Porath, 1974, pp. 8-9.
  30. [Biger]
  31. Hughes, 1999, p. 17; p. 97.
  32. 'Zionist Aspirations: Dr Weizmann on the Future of Palestine', The Times, Saturday, 8 May, 1920; p. 15. Þýðing eftir notendur íslensku Wikipeda.
  33. Gelber, 1997, pp. 6-15.
  34. Sicker, 1999, p. 164.
  35. Louis, 1969, p. 90.
  36. Ingrams, 1972
  37. „Mandate for Palestine - Interim report of the Mandatory to the LoN/Balfour Declaration text“ (enska). League of Nations. 30. júlí 1921. Afrit af upprunalegu geymt þann 11. október 2007. Sótt 8. mars 2007.
  38. Colonel Archer-Cust, Chief Secretary of the British Government in Palestine, said in a lecture to the Royal Empire Society that "The hanging of the two British Sergeants [an Irgun retaliation to British executions] did more than anything to get us out [of Palestine]". (The United Empire Journal, November-December 1949, taken from The Revolt, by Menachem Begin)
  39. Population data calculated from three pages of the online CIA World Factbook https://www.cia.gov/library/publications/the-world-factbook/geos/is.html Geymt 27 maí 2016 í Wayback Machine https://www.cia.gov/library/publications/the-world-factbook/geos/we.html Geymt 6 júlí 2019 í Wayback Machine https://www.cia.gov/library/publications/the-world-factbook/geos/gz.html Geymt 8 júní 2014 í Wayback Machine
  40. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 23. júní 2016. Sótt 18. desember 2009.
  41. http://www.btselem.org/