Fara í innihald

Land

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Land táknar oftast ríki eða viðurkennt svæði, sem heitir tilteknu nafni. Flest lönd eru afmörkuð hvert frá öðru með landamærum, sem hafa verið afskaplega breytileg og hreyfanleg í tímans rás. Sum lönd eru umlukin sjó eingöngu og hafa þá engin eiginleg landamæri. Þannig háttar til dæmis um Ísland og Japan. Önnur liggja að sjó að hluta og að öðrum löndum að hluta. Sem dæmi slíks má nefna Noreg og Danmörku. Þá eru einnig lönd sem eru algjörlega landlukt, en þau eiga hvergi land að sjó og allt umhverfis þau eru landamæri, sem liggja að einu eða fleiri öðrum ríkjum. Slík lönd eru sem dæmi Sviss og Tékkland. Til eru tvö lönd í veröldinni, sem kalla mætti tvílandlukt, en þau eru umkringd löndum, sem hvergi liggja að sjó. Þessi tvö lönd eru Úsbekistan og Liechtenstein.

Í annarri merkingu er orðið „land“ notað um svæði almennt án vísunar til heitis sérstaklega. Sem dæmi um slíka notkun orðsins mætti taka þessa setningu: „Í Himalajafjöllum liggur land að jafnaði hærra en annars staðar á jörðunni.“

Þriðja merking orðsins er stórt eða smátt svæði á jörðinni, sem stendur upp úr sjó, slíkt svæði nefnist meginland eða eyja og byggist aðgreiningin að mestu leyti á stærð. „Land fyrir stafni!“

Að síðustu mætti nefna þá merkingu orðsins sem vísar til eignar tiltekins manns eða lögaðila. „Möðrudalur á Fjöllum er ein landmesta jörð á Íslandi.“

  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.