Grace Jones
Grace Beverly Jones (fædd 19. maí 1948) er jamaísk-bandarísk fyrirsæta, söngkona, lagahöfundur og leikkona.[1] Árið 1999 var hún í 80. sæti á lista sjónvarpsstöðvarinnar VH1 yfir „100 mestu konur rokksins“ og árið 2008 hlaut hún idol-verðlaunin á Q Awards í Bretlandi. Jones hafði mikil áhrif á klæðskiptimenningu 9. áratugarins og hefur verið nefnd sem innblástur af fjölda listamanna á borð við Annie Lennox, Lady Gaga, Rihanna, Solange, Lorde, Róisín Murphy, Brazilian Girls, Nile Rodgers, Santigold og Basement Jaxx. Árið 2016 útnefndi tímaritið Billboard hana 40. vinsælasta danstónlistarmann allra tíma.[2]
Jones fæddist á Jamaíku, en flutti með fjölskyldu sinni til Syracuse í New York-fylki þegar hún var 13 ára. Hún hóf feril sem fyrirsæta í New York og vann síðan lengi í París fyrir tískufyrirtæki á borð við Yves St. Laurent og Kenzo og myndir af henni birtust á forsíðum Elle og Vogue. Hún vann meðal annars með ljósmyndurunum Jean-Paul Goude, Helmut Newton, Guy Bourdin og Hans Feurer, og varð vel þekkt fyrir einkennandi tvíkynja útlit og sterka andlitsdrætti.
Árið 1977 hóf Jones tónlistarferil með samningi við Island Records. Hún varð ein af stjörnum diskótónlistarsenunnar í kringum klúbbinn Studio 54 í New York-borg. Snemma á 9. áratugnum flutti hún sig yfir í nýbylgjutónlist, með áhrifum frá reggíi, fönki, póstpönki og popptónlist, oft í samstarfi við grafíska hönnuðinn Jean-Paul Goude og jamaíska döbbdúettinn Sly & Robbie. Vinsælustu breiðskífur hennar eru Warm Leatherette (1980), Nightclubbing (1981) og Slave to the Rhythm (1985). Hún náði á topp 40 á breska smáskífulistanum með lögin „Pull Up to the Bumper“, „I've Seen That Face Before“, „Private Life“ og „Slave to the Rhythm“. Árið 1982 gaf hún út safn tónlistarmyndbanda, A One Man Show, í leikstjórn Goude.
Jones kom fram í nokkrum bandarískum B-myndum á 8. og 9. áratugnum. Árið 1984 lék hún í sinni fyrstu stórmynd, sem Zula í ævintýramyndinni Conan the Destroyer ásamt Arnold Schwarzenegger og Söruh Douglas. Í kjölfarið lék hún háskakvendið May Day í James Bond-myndinni Víg í sjónmáli (A View to a Kill) 1985. Árið 1986 lék hún vampíru í Vamp og bæði lék og átti lag í Eddie Murphy-myndinni Boomerang frá 1992. Hún lék ásamt Tim Curry í myndinni Wolf Girl árið 2001. Hún hlaut tilnefningu til Saturn-verðlaunanna fyrir leik sinn í Conan, Víg í sjónmáli og Vamp.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Grace Jones: 'Carry yourself with class'“. Irishtimes.com. Sótt 13. október 2018.
- ↑ „Greatest of All Time Top Dance Club Artists : Page 1“. Billboard.com.