Fara í innihald

Háteigskirkja

Hnit: 64°08′19″N 21°54′22″V / 64.138748°N 21.906072°V / 64.138748; -21.906072
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Háteigskirkja
Háteigskirkja
Almennt
Núverandi prestur:  Sr. Helga Soffía Konráðsdóttir (sóknarprestur) og sr. Eiríkur Jóhannsson (prestur)
Byggingarár:  1957-1965
Arkitektúr
Arkitekt:  Halldór H. Jónsson
Háteigskirkja á Commons

Háteigskirkja stendur við gatnamót Háteigsvegar og Lönguhlíðar / Nóatúns í Reykjavík og er kirkja Háteigssafnaðar . Háteigsprestakall var stofnað með lögum 17. júlí 1952, en árið 1963 breyttust sóknarmörk með stofnun Grensásprestakalls. Háteigskirkja var vígð á aðventu 1965.

Ágrip af byggingarsögu Háteigskirkju

[breyta | breyta frumkóða]

Í upphafi var söfnuðurinn án kirkju en messað var í Fossvogskirkju og í hátíðarsal Sjómannaskólans. Bygging Háteigskirkju hófst í september 1957 en Halldór H. Jónsson arkitekt hannaði kirkjuna. Þórður Jasonarson, formaður sóknarnefndar tók fyrstu skóflustunguna. Þegar Sigurbjörn Einarsson biskup vígði kirkjuna í árslog 1965 var ýmsu ólokið. Með tilkomu safnaðarheimilis 1996 gerbreyttist aðstaða fyrir allt starf safnaðarins en safnaðarheimilið stendur norðan við kirkjuna og er tengt með glergangi við kirkjuna sjálfa.

Mósaíkmyndir Benedikts Gunnarsson í Háteigskirkju

[breyta | breyta frumkóða]
Miklatún og Háteigskirkja

Kvenfélag Háteigssóknar gaf kirkjunni kórmynd eftir Benedikt Gunnarsson listmálara á aðventu 1988. Kórmyndin sem er 40 fermetrar að stærð ber yfirskriftina ,,Krossinn og ljós heilagrar þrenningar" og er mósaíkverk sem unnið var eftir teikningum höfundar af Franz Mayer´sche Hofkunstanstalt, München, Þýskalandi. Kórmyndin var fyrsta verkið sem þetta fyrirtæki vann fyrir íslenska kirkju. Auk þess var Benedikt fyrsti íslenski listamaðurinn vann með fyrirtækinu við slíkt stórverk. Í verkið valdi Benedikt misþykkt mósaikefni, sem að meginhluta er úr handsteyptu plötugleri og feneysku glersmelti. Auk fyrrgreinds efnis valdi hann einnig fjölmarga náttúrusteina, meðal annars ýmsar tegundir marmara og hálf-eðalsteina, antíkgler, tilhöggvið gler, blaðgull og blaðsilfur í myndinni. [1] Í safnaðarheimilinu er að finna verk eftir Benedikt sem ber titilinn „Hvítasunna - kraftbirting heilags anda" og var önnur tillaga hans að kórmynd í kirkjunni en Benedikt færði kirkjunni verkið að gjöf í nóvember 2002 í tilefni af 50 ára afmæli safnaðarins. [2]

Vígðir þjónar kirkjunnar

[breyta | breyta frumkóða]

Prestkostningar fóru fyrst fram í Háteigssókn í október 1952 og var sr. Jón Þorvarðarson kosinn lögmætri kosningu og þjónaði hann söfnuðinum til október 1976. Annar prestur safnaðarins var Sr. Arngrímur Jónsson sem hóf störf í janúar 1964, en hann hafði hlotið flest atkvæði í prestskosningum 1. desember 1963. Hann þjónaði söfnuðinum til ársins 1993. Þriðji prestur safnaðarins Sr. Tómas Sveinsson hlaut flest atkvæði og var skipaður í embættið í nóvember 1976. Hann er sóknarprestur kirkjunnar í dag. Fjórði prestur safnaðarins Sr. Helga Soffía Konráðsdóttir hóf störf við Háteigskirkju í október 1993. Nokkrir prestar hafa komið að afleysingum í lengri eða skemmri tíma við kirkjuna, þar á meðal sr. Carlos Ferrer, sr. María Ágústsdóttir og sr. Guðbjörg Jóhannesdóttir.


  1. „Vefur Háteigskirkju“. Sótt 29. mars 2008.
  2. „Fréttavefur Háteigskirkju“. Sótt 29. mars 2008.

64°08′19″N 21°54′22″V / 64.138748°N 21.906072°V / 64.138748; -21.906072