Fara í innihald

Nauthólsvík

Hnit: 64°7′16.3″N 21°55′42.6″V / 64.121194°N 21.928500°V / 64.121194; -21.928500
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

64°7′16.3″N 21°55′42.6″V / 64.121194°N 21.928500°V / 64.121194; -21.928500

Ylströndin í Nauthólsvík.
Nauthólsvík úr lofti.

Nauthólsvík er lítil vík norðan megin í Fossvogi suðvestanmegin við Öskjuhlíð. Víkin heitir eftir kotinu Nauthól sem stóð þar við rætur Öskjuhlíðar í landi Skildinganess. Í Nauthólsvík er skeljasandur og þar hefur verið vinsælt útivistarsvæði frá því eftir Síðari heimsstyrjöld þegar Reykjavíkurborg eignaðist landið. Áður hafði breski herinn tekið landið eignarnámi fyrir Reykjavíkurflugvöll og byggingar honum tengdar. Í Nauthólsvík var braggabyggð í stríðinu og hótel fyrir flugvallarfarþega.

Í Nauthólsvík var áður fyrr vinsælt að stunda sjóböð en það lagðist af þegar mælingar leiddu í ljós mikla mengun vegna klóaks sem leitt var út í Fossvoginn. Slíkri losun var hætt á ofanverðri 20. öld og árið 2000 var Ylströndin opnuð í Nauthólsvík, lokuð, grunn vík þar sem heitt vatn er leitt út í sjóinn.

Í Nauthólsvík er vinsælt að stunda alls kyns vatnaíþróttir, svo sem sjósund, kajakróður, kænusiglingar, seglbrettasiglingar og kappróður. Siglingafélag ÍTR, Siglunes, Siglingafélag Reykjavíkur, Brokey og Sportkafarafélag Íslands eru þar með aðstöðu, en auk þeirra er fjöldi íþrótta- og áhugamannafélaga með aðstöðu í og við Nauthólsvík.

Árið 1932 falaðist Íþróttasamband Íslands eftir lóð í Nauthólsvík til að gera þar sundskála og íþróttavelli. Árið 1936 var þar skipulagt íþróttasvæði með stórum íþróttaleikvangi, átta knattspyrnuvöllum og níu tennisvöllum. Kappróðradeild Ármanns hóf þá að reisa þar hús yfir tvo innróna kappróðrabáta sem félagið átti og hafist var handa við að gera skeiðvöll fyrir kappreiðar. Framkvæmdir við svæðið lögðust hins vegar alveg af þegar breska setuliðið á Íslandi tók það undir braggabyggð í tengslum við Reykjavíkurflugvöll. Á styrjaldarárunum var því farið að horfa til Laugardals sem framtíðarsvæðis fyrir íþróttaiðkun í Reykjavík.

Eftir styrjöldina var róðradeild Ármanns starfrækt í Nauthólsvík. Síðar bættist við bátaskýli Róðrarfélags Reykjavíkur. Siglunes, siglinga- og róðraklúbbur æskulýðsráða Reykjavíkur og Kópavogs, var stofnaður árið 1962 og vorið 1967 keypti klúbburinn síðarnefnda bátaskýlið sem þá átti að rífa og hóf þar starfsemi. Á 8. áratugnum var skýlið stækkað mikið og steyptur rampur frá húsinu að sjó.

Frá 1971 til 1983 voru hátíðahöld á sjómannadaginn haldin í Nauthólsvík, en 1984 var dagskráin flutt yfir í Reykjavíkurhöfn.

  Þessi Reykjavíkurgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.