Manuel Noriega
Manuel Noriega | |
---|---|
Herstjóri Panama | |
Í embætti 12. ágúst 1983 – 20. desember 1989 | |
Forseti | Ricardo de la Espriella Jorge Illueca Nicolás Ardito Barletta Eric Arturo Delvalle Manuel Solís Palma Francisco Rodríguez |
Forveri | Rubén Darío Paredes |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 11. febrúar 1934 Panamaborg, Panama |
Látinn | 29. maí 2017 (83 ára) Panamaborg, Panama |
Þjóðerni | Panamskur |
Maki | Felicidad Sieiro de Noriega (g. 1960) |
Börn | 3 |
Háskóli | Chorillos-herskólinn School of the Americas |
Manuel Noriega (11. febrúar 1934 – 29. maí 2017) var stjórnmálamaður og hermaður frá Panama. Hann var landstjóri Panamahers frá 1983 til 1989. Hann komst til valda með stuðningi CIA og nýtti stöðu sína til eiturlyfjasmygls fyrir Medellín-eiturlyfjahringinn í Kólumbíu og peningaþvætti. Kosningasvindl, morð á pólitískum andstæðingum og harka í viðskiptum við mótmælendur urðu til þess að stuðningur Bandaríkjanna við Noriega minnkaði og 1989 var ákveðið að beita landið viðskiptaþvingunum.[1] Þetta leiddi til átaka milli vopnaðra hópa og bandarískra hermanna og starfsliðs við Panamaskurðinn sem urðu til þess að Bandaríkjaher gerði innrás 20. desember 1989. Fimm dögum síðar leitaði Noriega hælis í sendiráði Vatíkansins í Panamaborg. Eftir tíu daga umsátur Bandaríkjahers um sendiráðið gafst hann upp. Þann 3. janúar 1990 var hann tekinn höndum og fluttur til Bandaríkjanna sem stríðsfangi.[2] Í september 1992 var hann dæmdur í 40 ára fangelsi fyrir eiturlyfjasmygl, fjárkúgun og peningaþvætti. Rétturinn neitaði að leyfa honum að lýsa störfum sínum fyrir CIA þar sem þær upplýsingar væru leynilegar og uppljóstrun um þessi verkefni væri andstæð hagsmunum Bandaríkjanna.
Fangelsisdómurinn yfir Noriega var styttur í 30 ár. Hann fékk lausn fyrir góða hegðun eftir 17 ára fangavist 9. september 2007 og var þá framseldur í hendur Frakka sem héldu honum í fangelsi í París fyrir peningaþvætti vegna kaupa á íbúðum í borginni. Áður hafði Noriega fengið heiðursmerki Franska heiðursvarðarins 1987.[3] Í desember 2011 var hann svo framseldur til Panama. Hann lést í fangavist þar árið 2017.[4]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Guðmundur Halldórsson (14. maí 1989). „Eiturlyfjaeinvaldurinn“. Morgunblaðið. bls. 13.
- ↑ Karl Blöndal (12. apríl 1992). „Enginn grætur Noriega“. Morgunblaðið. bls. 22.
- ↑ Ásgeir Sverrisson (16. september 2007). „Hvert fer fangi #38699-079?“. Morgunblaðið. bls. 16.
- ↑ „Noriega látinn“. mbl.is. 30. maí 2017. Sótt 10. júní 2021.